Hver er Dagbjört og af hverju er hún að gefa út bók?
ég heiti Dagbjört og er fertug móðir eiginkona og lögfræðingur. Ég elska að ferðast og borða góðan mat í góðra vina hóp og nærist á gæðastundum með mínum nánustu.
Þið eruð kannski að velta fyrir ykkur af hverju ég ákvað að gefa út þessa bók og hvernig þessi bók varð til.
Til þess þurfum við að bakka aðeins til baka í tímann.
Ég skal vera hreinskilin við ykkur og get viðurkennt það að ég hef alls ekki alltaf verið skynsöm í fjármálum. Í raun yrði 25 ára Dagbjört orðlaus yfir fertugu Dagbjörtu.
Á mínum yngri árum spáði ég voða lítið í peninga, fannst mjög gaman að vinna mikið en var líka mjög dugleg að eyða laununum - og var svo sannarlega ekki að leggja fyrir í einhvern sparnað!
Fyrir rúmum áratug síðan ákvað ég síðan að skrá mig í fimm ára krefjandi háskólanám. Að vera námsmaður með tvö ung börn var svo sannarlega krefjandi tímabil og þurfti ég að passa hverja einustu krónu!
Eftir háskólanám jukust tekjurnar en ég var ekkert mjög meðvituð í mínum innkaupum. Ég fann að mig langaði að taka eyðsluna fastari tökum og ákvað að taka lítil skref í átt að því að draga úr óþarfa útgjöldum.
Ég fór því að skrifa niður öll útgjöldin mín viku fyrir viku. Fyrir vikið varð ég mun meðvitaðri í hvað peningarnir mínir fóru. Ég fór að setja mér skýr markmið um hvað ég vildi gera við peningana mína, hvort sem það var að leggja þá fyrir eða ráðstafa þeim með öðrum hætti.
Hægt og rólega fóru góðar venjur að skila sér inn:
-Ég dró hægt og rólega úr fatainnkaupum (þau sem þekkja minn bakgrunn úr -fatageiranum vita að það er mikið stökk frá því sem áður var).
-Ég reyndi að kaupa notað frekar en nýtt.
-Ég tók reglulega eyðslulausan mánuð þar sem ég keypti engan óþarfa.
Allt þetta leiddi til þess að ég fór að átta mig á að þessar venjur gerðu það að verkum að ég átti auka pening til að leggja til hliðar (sem er ástæða að baki nafninu Fundið fé).
Sem dæmi tókst okkur fjölskyldunni það markmið að safna fyrir 4 mánaða Asíureisu!
Það sem skipti mestu máli á okkar fjárhagslega ferðlalagi var að:
-skrifa niður allt sem keypt var og gera áætlun með útgjöldin.
-Vera með skýr fjárhagsleg markmið.
Ég var hins vegar alltaf að skrá niður öll útgjöld á blað hér og þar og langaði svo að eignast bók þar sem ég gæti haldið utan um stöðuna. Bók þar sem ég gæti skráð niður mín fjárhagsleg markmið og áskoranir til að peppa mig áfram. Svo fannst mig líka alveg vanta hvatningu á samfélagsmiðlum.
Ég hugsaði; "einn daginn geri ég svona bók sjálf og held svo námskeið til þess að miðla áfram því sem ég hef lært á mínu ferðalagi".
En þið vitið hvernig þetta er. Tíminn flýgur og þó að ég hafi verið komin með drög að uppsetningu á bókinni hafði ég ekki farið lengra með þetta verkefni.
Svo rakst ég á auglýsingu á netinu um nýsköpunarhraðal sem var sérstaklega hannaður fyrir viðskiptahugmyndir kvenna í nýsköpun (Academy for Women Entrepreneurs/AWE). Ég ákvað því að sækja um og hugsaði að ef ég fengi inngöngu á myndi ég gera mitt allra bestatil að láta verkefnið mitt verða að veruleika.
...og viti menn, umsóknin mín var samþykkt!
Í þessum hraðli fékk hugmyndin mín að blómstra og stækka. Eftir útskrift ákvað ég að láta drauminn minn rætast um að gefa bókina út og halda námskeið með það að markmiði að hjálpa fólki að halda utan um útgjöldin sín, setja sér fjárhagsleg markmið og finna fé sem það taldi sig ekki eiga aflögu.
Þetta hefur verið algjört rússibanaverkefni með miklum hæðum og lægðum. Ég trúi því varla að það sé að koma að þessu en mikið ótrúlega er ég spennt að deila þessu öllu með ykkur - og fá að fylgjast með ykkur á ykkar fjárhagslega ferðalagi.